
Vertu breytingin sem þú vilt sjá
Velkomin á Plokk.is
Um áraraðir hef ég dáðst af Tomma Knúts vini mínum í Bláa Hernum og kraftinum í honum þegar kemur að því að þrífa strandlengju landsins. Það sama má segja um Eyþór Hannesson á Egilsstöðum sem er í raun fyrsti alvöru plokkarinn á Íslandi sem skokkar og týnir upp rusl og komst fyrir það í fréttirnar fyrst fyrir um 5-6 árum. Þá voru Sigurður Guðjónsson lögfræðingur og Atlas hundurinn hans mér innblástur en þeir hafa hjólað og rölta um höfuðborgarsvæðið og týnt flöskur og svakalegt magn sígarettu stubba og deila afrakstrinum á Rusl í Reykjavík síðunni. Þá var hún Björg Fríður Freyja sem endanlega varð til þess að ég gekk á sjálfan mig og sagði „hvað getur þú gert drengur?“. En árið 2017 fór hún með vaska sveit um Laugarnestangann og týndi nokkra vörubílsfarma af rusli upp úr grasinu og fjörunni þar. Allt frábærir ósérhlífið fólk
„Þú gerir ekki rassgat einn.”
Allt þetta fólk hér að ofan og fleiri góðir aðilar urðu mér þannig hvatning í þessum efnum og ég var alltaf að hugsa „Ég verð að fara að gera eitthvað, það er ekki hægt að sitja bara á rassinum,“ Þá sá ég þetta plokkæði eða „plogging“ sem var að fæðast í Svíþjóð og hugsaði með mér að kannski gæti ég notað hæfileika mína í almannatengslum og markaðsmálum og búið bara til svona Plokk hreyfingu á Íslandi. Það varð svo úr að ég skutlaði mér í það sem ég kallaði nú bara tilraun þá. Ég stofnaði síðuna Plokk á Íslandi þann 1. mars 2018 og eins og hendi væri veifað þá fylltist síðan að jákvæðum kraftmiklum einstaklingum sem breyttu þessu úr tilraun í risavaxið hreyfiafl.
Meistaradeildin stækkar
Í þessu ævintýri hafa þau verið fremst meðal jafninga þau Örlygur Sigurjónsson, betur þekktur sem kæjak plokkarinn. Plokk-feðgarnir Svavar Hávarðarson og sonur hans Atli. Þórdís Þórhallsdóttir, Árni Guðmundsson og Vigfús Eyjólfsson sem öll eru úrvaldeildar plokkarar og halda öðrum á tánum. Mitt hlutverk auk þess að plokka hefur mér fundist vera að halda utan um þetta starf okkar, hvetja og vekja athygli á þessari vinnu okkar í þeirri von að fleiri sláist í hópinn og hægt og rólega „normalisiserum“ þessa hegðun og breytum ímynd þeirra sem fara út að tína upp rusl eftir aðra úr því að vera „rugludallar“ í það að verða „Hvundagshetjur“ og stolt hvers hverfis eða sveitafélags og ég held að það sé að takast.
Plokkið er mín hugleiðsla.
Sjálfur plokka ég mest á vorin og inn í sumarið og svo aftur á hausti og fram að jólum. Það er mitt keppnistímabil. Ég set það ekki fyrir mig að fara einn og svo koma oft plokkarar úr grúppunni með mér. Konan mín fer oft með mér, tengdó og systir hennar hafa líka komið með. Mamma er rosalega dugleg líka en hún býr fyrir austan þannig að við förum ekki oft saman. En þetta er þannig að það þarf ekkert próf, reynslu eða sérþekkingu í þetta. Það geta þetta allir. Margir geta hreint ekki hugsað sér að fara að týna upp rusl eftir aðra. Um leið og maður byrja og ef maður er með plokk töng og poka og vel klæddur í veðrið þá er þetta hin besta hreyfing og kærkomin hugleiðsla fyrir mig. Ganga um náttúruna í sínum eigin heimi og horfa á sitt nánast umhverfi og skilja betur við það heldur en þegar maður fór af stað. Það er ljúf og góð tilfinning og auðvelt að ánetjast henni.
Skilagjald er snilld.
Í plokkinu verður manni fljótt ljóst að endurvinnsla á drykkjarumbúðum í gegnum endurvinnsluna er algjörlega frábært verkefni. Það heyrir til undantekninga að við sjáum dósir eða flöskur á víðavangi. Það er helst að það sé ein og ein orkudrykkja dós eða plast flaska en annað er undantekning. Það segir okkur að skilagjald og sú hringrás sem þar er í gangi virkar. Þetta væri gaman að sjá á einnota kaffimál og einangrunar plast og plast poka, það myndi gera gríðarlega mikið gagn í baráttunni við sorp í lausagangi.
Margt mjög jákvætt.
Við sem plokkum erum á einu máli um það að breytingar sem gerður voru á reglum í fyrra um afhendingar á fríum plastpokum í búðum eru að skila sér strax. Innkaupapokar og litlu ávaxtapoka andskotarnir sem voru ógeðslegar erfiðir viðureignar eru svo gott sem horfnir úr náttúrunni og það eru í raun algjör tímamótatíðindi því margir efuðust um að þetta meinta mannréttindabrot myndi skila sér. En það gerði það svo sannarlega. Mig langar nú líka bara að þakka Umhverfisráðherranum fyrir þennan gjörning og ég hvet hann áfram til dáða í þrengingum á allri óábyrgri meðferð á plasti og rusli.
Stöndum saman.
Ég er þeirra trúar að það sé í raun engin sóði. Ruslið sem við sjáum á víðavangi er þar vegna vanrækslu og lélegs frágangs. Ekki svo mikið að fólk hendi bara hlutum eins og einangrunarplasti, pitsukössum eða öðru slíku. Megnið af þessu hefur fokið frá „fjölskyldunum“ sínum. Að mestu leyti er þetta klaufaskapur og lélegur frágangur á rusli og sorptunnum og/eða slæleg vinnubrögð á athafnasvæðum, sérstaklega yfir veturinn. Sorpið reynir nefnilega með öllum ráðum að sleppa frá þeim sem hugsa illa um það og það er bara skiljanlegt. En allt rusl á rétt á því að vera vistað á viðeigandi stofnun.
Hreint land, fagurt land er gamalt og gott slagorð. Við höfum fengið það að láni í plokkið. Vertu með okkur í baráttunni við sorp í lausagangi. Virkjaðu nágranna og vini með okkur og höldum lóðinni, götunni, hverfinu, bænum, borginni, já og landinu öllu hreinu og fínu.


Tilkynnum sóðaskap
Heilbrigðiseftirlitin eru rétti vettvangurinn til að tilkynna fyrirtæki sem eru með mengandi eða sóðalegri umgengni. Til dæmis byggingaverktaka sem ekki ganga frá einangrunar plasti eða kork sem svo fýkur um allt næsta nágrenni. Mengandi véla og bílahræ. Fyrirtæki sem skila af sér sorpi í gáma eða tunnur sem ekki halda vindi, opnast eða jafnvel detta þannig að ruslið úr þeim fýkur um allt líka.
Vertu breytingin sem þú vilt sjá
Um áraraðir hef ég dáðst af Tomma Knúts vini mínum í Bláa Hernum og kraftinum í honum þegar kemur að því að þrífa strandlengju landsins. Það sama má segja um Eyþór Hannesson á Egilsstöðum sem er í raun fyrsti alvöru plokkarinn á Íslandi sem skokkar og týnir upp rusl og komst fyrir það…
Sjá nánar






Vertu ekki í rusli
plokk@plokk.is