PLOKK PARTÝ STJÓRA TRIXIN

Vilt þú ekki bara verða plokk hetjan í hverfinu, vinnustaðnum, félaga hópnum eða saumaklúbbnum? Ef við fylgjum þessu leiðbeiningum þá eiga allir að finna sig vel í þessu þrátt fyrir að hafa aldrei gert þetta áður. Öll hvatning og miðlun á samfélagsmiðlum er ekki mont heldur þvert á móti hvatning til annarra að láta sitt ekki eftir liggja.

HVERNIG?

• Velur svæði sem þú vilt elska. Stofnar viðburð í eigin nafni og skýrir hann “PLOKK-eitthvað" deilir honum inn á Plokk á Íslandi á Facebook til að lokka til þín fleiri plokkara. Deildu viðburðinum á bæjar síðuna þína eða hverfa síðuna eða hvoru tveggja. Muna að taka myndir á viðburðinum og vera dugleg að eila á samfélagsmiðla og merkja #plokk #plokk2024

• Þau ykkar sem eruð dugleg á Instagram og Facebook og póstið í “Story” getið farið í valmynd og farið í GIF og skrifað PLOKK þá koma upp GIF merki fyrir Stóra plokkdaginn sem gaman er að setja inn á myndirnar um leið og við merkjum með myllumerkjunum#.

HVAÐ ÞARF ÉG?

• Glæra plastpoka - ágætt er að hafa tvo poka, setja plastið í einn og allt annað í hinn.

• Snæri eða bensli til að loka plastpokunum svo ekkert fjúki úr þeim þegar búið er að fylla þá.

• Plokktangir eru ágætar, ekki nauðsynlegar. Því ódýrari, því betri, segi ég af reynslu. Því þær sem eru dýrari eru efnismeiri og þá þyngri. Þær fást alltaf í Húsasmiðjunni, Byko, Bauhaus, Rekstravörum og hjá Íslenska Gámafélaginu og Terra. Á vorin og í kringum Stóra Plokkdaginn eru þær líka oft til sölu hjá Krónunni, Bónus og Nettó.

HVERNIG ERUM VIÐ ÚTBÚIN?

• Klæðum okkur eftir aðstæðum. Hanskar eru ákjósanlegir. Öryggisvesti eru ákjósanleg en skilda ef við erum að plokka meðfram vegum eða við götur.

HVERNIG VELJUM VIÐ STAÐ?

• Það er ekki ákjósanlegt að vera í kringum stór umferðarmannvirki eins og meðfram Reykjanesbrautinni og stóru umferðaræðunum í borginni nema fólk sé sérstaklega útbúið m.a. í endurskinsvestum osfrv. Og þetta eru ekki staðir fyrir börn.

• Í kringum þjónustukjarna er alltaf mikið plast og umbúðarusl. Þjónustukjarnarnir eru þar sem dagvöruverslanir, skyndibitastaðir, kaffihús, bensínstöðvar og ísbúðir er að finna. Það er iðulega mikið rusl sem fýkur frá ruslatunnum og ruslagámum við þessi svæði.

• Þá eru öruggustu svæðin líklega svæði í kringum íþróttavelli, skólalóðir og opin svæði. Girðingar í kringum þau taka oft drjúgt til sín.

• En við plokkum allstaðar þar sem þarf að plokka

NAUÐSYNLEGT:

• Skipa verkefnisstjóra ( cirka 15 tíma verkefni ). Hægt er að skipta verkefni verkefnisstjóra niður á fleiri en einn.

• Skipuleggja plokkviðburð í tvo til þrjá tíma á deginum sjálfum 28. apríl. Viðburðurinn má byrja hvenær sem er frá kl 10 og þarf að vera lokið kl. 16.

• Ákveða stað viðburðar í samráði við viðkomandi sveitarfélag. Gera þannig sveitarfélaginu viðvart með það að leiðarljósi að fá starfsfólk þess til að sækja afrakstur dagsins í lok viðburðar.

• Ákveða tíma dags í samráði við þá sem þið viljið fá með ykkur og viðkomandi sveitarfélag.

• Stofna til viðburðar á Facebook og tengja við íbúa síður og kynna á hverfasíðum sveitarfélags og samfélagsmiðlum sem hafa með plokk að gera.

NICE TO HAVE:

• Athuga hvort sveitarfélag er í aðstöðu til að leggja til áhöld og poka.

• Fá veitingaaðila, verslun eða aðra máttarstólpa til að leggja til drykki, kex eða annað snarl fyrir þátttakendur.

• Jafnvel að henta í eitt gott pulsu grill partý

• Fá einhvern massa skemmtilegan peppara, vera með hátalara og músik eða jafnvel einhvern sem spilar á hljóðfæri fyrir eða eftir

• Hvetja nær samfélagið til þátttöku.

ATH ALLT PLOKK Í GLÆRA POKA. Loka þeim mjög vel og skorða ef það á að geyma þá yfir nótt. Fyrir ykkur sem getið komið plokk afrakstrinum á Sorpu þá tekur Sorpa á móti glærum pokum án endurgjalds í 3 daga eftir Stóra plokkdaginn.